Hernaðaraðgerðir gegn talibönum geta tekið þrjú til fimm ár í viðbót, að sögn eins af yfirmönnum stöðugleikasveita (ISAF) Atlantshafsbandalagsins (NATO) í Afganistan, David Richards. Hann segist vera sannfærður um að baráttan við talibana muni skila árangri og talibanar hætti uppreisn sinni. Alls eru tíu þúsund hermenn í liði ISAF í Afganistan.
Miklar aðgerðir hafa verið gegn talibönum í Afganistan síðustu tvær vikur. Í dag hófst ný aðgerð í austurhluta landsins og taka fleiri þúsund hermann í herliði NATO og afganska hernum þátt í þeim. Talið er að 17 talibanar hafi fallið í aðgerðunum í dag og einn bandarískur hermaður.
Að sögn talsmanns ISAF féllu yfir fimm hundruð talibanar í aðgerð sem afganski herinn og NATO tóku þátt í fyrr í mánuðinum.