Skiptar skoðanir koma fram í heimspressunni í dag á orðum páfa um Múhameð spámann en flestir vestrænir fréttaskýrendur eru þó sammála um að orð hans hafa verið mistúlkuð. Flestir þeirra eru þó einnig sammála um að þau hafi verið ónærgætin og óskynsamleg. Mikil reiði ríkir meðal múslíma vegna ummælanna en páfi vitnaði í ávarpi, sem hann flutti í Þýskalandi á miðvikudag, til fimmtándu aldar keisara sem sagði Múhameð spámann ekki hafa fært heiminum annað en illsku og ómannúð.
“Heimurinn hlustar af athygli á orð allra páfa,” segir í bandaríska blaðinu The New York Times. “Og það er sorglegt og hættulegt þegar sársauka er sáð, hvort sem það er með vilja gert eða af kæruleysi. Hann verður að biðjast afsökunar af dýpt og sannfæringarkrafti og sýna þannig að orð geta einnig læknað.” Þá segir að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem Benedikt páfi stuðli að ósætti á milli kristinna manna og múslíma. Hann hafi árið 2004, áður en hann tók við páfadómi, lagst opinberlega gegn aðild Tyrklands að Evrópusambandinu á þeirri forsendu að “múslímaþjóð félli ekki að gildum Evrópu.
Þýska blaðið Zeitung tekur í sama streng og segir páfa hafa gert pólitísk mistök með því að leyfa sér að tala eins og guðfræðingur en ekki sem leiðtogi rúmlega eins milljarðs manna. Þýska blaðið Tageszeitung segir viðbrögð múslíma hins vegar ýkt og viðbrögðin við þeim greinilega miða að því að ýta undir illindi.
Bresk blöð segja viðbrögð múslima einnig ýkt en gagnrýna þó ummælin og segja þau misráðin og sýna sambandsleysi á milli Páfagarðs og umheimsins. “Páfi hefur lifað klausturslífi þar sem hann hefur lítið verið í tengslum við hin vanhelgu málefni stjórnmála umheimsins. Hann þarf að hafa ráðgjafa í kring um sig sem hafa fylgst með þeim,” segir The Guardian.