Ríkisstjórn Afganistans slóst í dag í hóp þeirra yfirvalda í múslímaríkjum sem hafa fordæmt ummæli páfa. Í yfirlýsingu utanríkisráðuneytis landsins segir að ummælin sýni ófullnægjandi skilning á íslam og að hætt sé við að þau ýti undir ofbeldi og spennu á milli trúarbragða. Þá er þess krafist að páfi biðjist opinberlega afsökunar en fyrr í dag birtist yfirlýsing frá talibanahreyfingunni þar sem formlegrar afsökunarbeiðni páfa er krafist.
Yfirvöld í Morokkó tilkynntu einnig í dag að þau hefðu ákveðið a kalla sendiherra sinn hjá Páfagarði heim í kjölfar móðgandi ummæla Benedikts XVI páfa um Múhameð spámann. Í tilkynningu utanríkisráðuneytisins kemur fram að Mohammed VI konungur hafi ákveðið að kalla sendiherrann Ali Achour heim til ráðagerða auk þess sem hann hafi sent Páfagarði mótmælabréf vegna málsins.
Utanríkisráðherra Páfagarðs sagði í dag að páfi iðraðist þess sárlega að hafa móðgað múslíma. Hann hafi samið ræðu sína sjálfur og ekki sýnt ráðgjöfum sínum hana áður en hann flutti hana en í ræðunni vitnaði páfi m.a. í fimmtándu aldar keisara sem sagði Múhameð spámann einungis hafa fært heiminum illsku og ómannúð.