Fredrik Reinfeldt, leiðtogi Hægriflokksins í Svíþjóð, lýsti í kvöld yfir sigri í þingkosningunum, sem fóru fram í dag, og sagði að bandalag fjögurra stjórnarandstöðuflokkanna myndi stýra landinu næstu fjögur árin. Hægriflokkurinn fékk 26% atkvæða og bætti við sig 10,9% miðað við kosningarnar árið 2002. Göran Persson, forsætisráðherra og leiðtogi Jafnaðarmannaflokksins, játaði einnig ósigur ríkisstjórnarinnar. Gert er ráð fyrir að formlegar stjórnarmyndunarviðræður hefjist strax á morgun.
Þegar búið var að telja atkvæði frá 5768 af 5783 kjördeildum hafði Jafnaðarmannaflokkurinn fengið 35,2% og tapað 4,8% frá síðustu kosningum. Vinstriflokkurinn hafði fengið 5,8%, tapað 2,5% og Umhverfisflokkurinn 5,2%, bætt við sig 0,6%. Samtals höfðu Jafnaðarmannaflokkurinn og stuðningsflokkar hans tveir fengið 46,2% atkvæða og 171 þingsæti.
Hægriflokkurinn hafð fengið 26,1% atkvæða, bætt við sig 10,9%, Miðflokkurinn hafði fengið 7,9% atkvæða, bætt við sig 1,7%, Þjóðarflokkurinn hafði fengið 7,5% atkvæða, tapað 5,9% og Kristilegi demókrataflokkurinn 6,6% og tapað 2,5%. Samkvæmt þessu fengju mið- og borgaraflokkarnir 48,1% atkvæða og 178 þingsæti.
Fredrik John Reinfeldt, sem væntanlega verður næsti forsætisráðherra Svíþjóðar, er 41 árs gamall hagfræðingur. Hann tók við leiðtogaembætti Hægriflokksins árið 2003 af Bo Lundgren. Reinfeldt býr í Täby fyrir norðan Stokkhólm. Hann er kvæntur og þriggja barna faðir.