Ríkisstjórn Svíþjóðar fallin samkvæmt útgönguspá

Forsvarsmenn þeirra flokka sem eiga aðild að bandalagi borgaraflokkanna; Göran …
Forsvarsmenn þeirra flokka sem eiga aðild að bandalagi borgaraflokkanna; Göran Hagglund, Maud Olofsson, Lars Leijonborg og Fredrik Reinfeldt í Stokkhólmi í dag. AP

Ríkisstjórn Görans Perssons, forsætisráðherra Svíþjóðar, er fallin samkvæmt úrgönguspá sænska ríkisútvarpsins. Samkvæmt spánni, sem byggir á svörum 10.000 kjósenda, fá ríkisstjórnarflokkarnir 45,6% atkvæða í kosningunum en bandalag borgaraflokkanna 49,7% atkvæða. Þetta kemur fram á fréttavef Dagens Nyheter.

Samkvæmt útgönguspánni fékk Jafnaðarmannaflokkurinn 34,3% og missir 5,6% fylgi frá síðustu kosningum. Vinstriflokkurinn fékk 5,8% og Græningjar 5,5% en þessir þrír flokkar hafa staðið að ríkisstjórn Svíþjóðar síðustu kjörtímabil. Hægriflokkurinn fékk 26,6%, Miðflokkurinn 8,2%, Kristilegi demókrataflokkurinn 7,6% og Þjóðarflokkurinn 7,3%.

Meðal þeirra flokka sem ekki koma að manni á þingið er tiltölulega nýstofnaður kvennaflokkur, sem fékk 1% atkvæða, samkvæmt útgönguspánni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert