Útlit fyrir spennandi kosninganótt í Svíþjóð

Fredrik Reinfeldt, leiðtogi Hægriflokksins í Svíþjóð.
Fredrik Reinfeldt, leiðtogi Hægriflokksins í Svíþjóð. Reuters

Útlit er fyrir spennandi kosinganótt í Svíþjóð að sögn sérfræðinga sænska ríkissjónvarpsins og hugsanlega liggja úrslit ekki fyrir fyrr en eftir helgi þegar öll atkvæði, sem send hafa verið í pósti, hafa verið talin. Útgönguspár bentu til þess að bandalag mið- og hægriflokkanna hefði farið með sigur af hólmi og ríkisstjórnin væri því fallin en þegar sjónvarpið birti kosningaspá, sem einnig byggði á upplýsingum um talningu atkvæða hafði munurinn milli fylkinganna minnkað mikið.

Samkvæmt kosningaspánni fær Jafnaðarmannaflokkurinn 36,1%, 3,8% minna en í síðustu kosningum, Vinstriflokkurinn fær 5,9%, tapar 2,5% en Umhverfisflokkurinn fær 4,9% og eykur fylgi sitt um 0,3%. Samkvæmt þessu fá stjórnarflokkarnir 46,9% atkvæða og 173 þingsæti.

Hægriflokkurinn fær samkvæmt kosningaspánni 25,3% atkvæða, 9,9% meira en í síðustu kosningum. Þjóðarflokkurinn fær 8,2%, tapar 5,2%, Miðflokkurinn 7,5% og bætir við sig 1,2% og Kristilegi demókrataflokkurinn 6,4%, tapar 2,7%. Samtals fá stjórnarandstöðuflokkarnir 47,4% og 176 þingsæti.

Kjörsókn var 80%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert