Helsti samningamaður Írana í kjarnorkumálefnum, Ali Larijani, mun eiga fund með Javier Solana, sem fer með utanríkismálefni Evrópusambandsins, í næstu viku. Fundurinn verður haldinn í Evrópu, samkvæmt frétt IRNA fréttastofunnar.
Síðasti fundur þeirra var haldinn í Vín í Austurríki fyrir tveimur vikum um kjarnorkudeilurnar.
Náist ekki málamiðlun gæti öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hafið umræður um refsiaðgerðir gagnvart Írönum sem hafa neitað að hætta tilraunum sínum með auðgun úrans, eins og krafist er af hálfu öryggisráðsins.