Forseti Íraks: Ekkert ákveðið um her bandamanna fyrr en íraski herinn getur tryggt öryggi

Jalal Talibani heldur ræðu sína við allherjarþing SÞ
Jalal Talibani heldur ræðu sína við allherjarþing SÞ AP

Jalal Talibani, forseti Íraks, sagði í ávarpi sínu við allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í dag að ekkert verði ákveðið um það hvenær herlið Bandaríkjamanna og annarra bandamanna fari frá Írak fyrr en íraski herinn sé sjálfur fær um að halda uppi öryggi og binda enda á hryðjuverk.

Sagði forsetinn í ræðu sinni að hryðjuverkahópar drepi ekki aðeins saklaust fólk, og skapi ringulreið, heldur miði að því að koma í veg fyrir viðleitni til að endurbyggja landið.

Þá sagði Talibani nokkurn árangur hafa náðst í uppbyggingu íraska hersins, en að bandarískt herlið væri í landinu að beiðni stjórnvalda. Sagði hann veru erlends herliðs í landinu nauðsynlega meðan verið væri að byggja upp lið sem gæti bundið enda á hryðjuverk og skapað stöðugleika og öryggi í Írak. Þá fyrst þegar það væri fengið væri hægt að ræða um brottför fjölþjóðlega liðsins í Írak.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert