Þúsundir múslima mótmæltu Benedikt XVI páfa í Jerúsalem, á Vesturbakkanum og Gaza í dag og veifuðu grænum fánum Hamas hreyfingarinnar. Í borginni Nablus mótmæltu um 2.000 manns og hrópuðu slagorð, kölluðu páfa heigul og sögðust þola hungur, hernám og fangelsun, en ekki að móðganir í garð Múhameðs spámanns.
Þremur rörasprengjum var kastað að grísku rétttrúnaðarkirkjunni í Gaza, en að öðru leyti fóru mótmælin friðsamlega fram.
Múslimar eru enn reiðir páfa vegna þess þegar páfi vitnaði í texta frá miðöldum þar sem kenningar Múhameðs spámanns eru sagðar illar og ómennskar, þykir mörgum páfi ekki hafa beðist afsökunar á fullnægjandi hátt. En hann hefur sagt að hann hafi ekki ætlað að rægja múslima með orðum sínum, án þess þó að hann hafi beinlínis beðist afsökunar á orðum sínum.