Vill að ferðamenn fái aðgang að kjarnorkuverum Írans

Kjarnorkuver í Bushehr í Íran.
Kjarnorkuver í Bushehr í Íran. Reuters

Mahmoud Ahmadinejad, forseti Írans, hefur fyrirskipað að skipulagðar verði skoðunarferðir fyrir erlenda ferðamenn um kjarnorkuframleiðslusvæði Írana. Segist forsetinn þannig vilja sýna fram á að kjarnorkuáætlun Írana sé friðsamleg og hafi engan hernaðarlegan tilgang.

Hingað til hafa aðeins eftirlitsmenn Sameinuðu þjóðanna fengið að fara um þau svæði þar sem unnið er að því að hægt verði að framleiða kjarnorku. Ferðamálaráð Írans mun hafa fengið umboð forsetans, í kjölfar fyrirskipunarinnar, til að finna leiðir til að útlendingum verði veittur aðgangur undir leiðsögn.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna og fjöldi þjóða hafa reynt að sannfæra Írana um að láta af kjarnorkuáætlun sinni og hætta auðgun úrans þar sem óttast er að þeir hyggist smíða kjarnavopn. Íranar hafa hins vegar sagt að ekkert geti fengið þá ofan af því að auðga úran.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert