Ný ríkisstjórn í Svíþjóð ætlar að lækka tekjuskatta um samtals 37 milljarða sænskra króna á næsta ári, og leggja áherslu á stækkun Evrópusambandsins, að því er fram kom í stefnuræðu Fredriks Reinfeldts í dag. Þá tilkynnti hann að Carl Bildt verði utanríkisráðherra í stjórninni.
Helstu ráðherraembætti falla flokksmönnum Reinfeldts í skaut, þar á meðal ráðuneyti fjármála, varnarmála og dómsmála. Stjórnin tekur við völdum í dag. Reinfeldt sagði að það yrði einnig á stefnuskránni að draga úr fátækt í heiminum og verja mannréttindi. Nefndi hann sérstaklega ástandið í Darfur í Súdan, sem væri „einhverjar mestu hörmungar okkar tíma“.
Skipan Bildts kom mörgum á óvart, þar sem hann hafði gefið í skyn að hann hefði ekki áhuga á embættinu.
Maud Olofsson, leiðtogi Miðflokksins, er viðskiptaráðherra, Göran Hägglund, leiðtogi Kristilega demókrataflokksins, er félagsmálaráðherra og Lars Leijonborg, leiðtogi Þjóðarflokksins, er menntamálaráðherra.