Harðlínumúslimar mótmæla við sendiráð Dana í Indónesíu

Frá mótmælum við sendiráð Dana í Jakarta í dag
Frá mótmælum við sendiráð Dana í Jakarta í dag AP

Um fimmtíu harðlínu múslimar mótmæltu fyrir utan sendiráð Dana í Indónesíu gerð myndbands sem ungliðar í danska Þjóðarflokknum gera grín að Múhameð spámanni. Mótmælendurnir báru svarta fána með áletrunum á arabísku auk spjalda sem á stóð að lítilsvirðing sem spámanninum er sýnd lýsir hatri Vesturlanda á íslam.

Í yfirlýsingu sem gefin var við mótmælin kemur fram að þeir mótmæli harðlega þeirri móðgun og lítilsvirðingu sem múslimum er sýnd og þess krafist að dönsk stjórnvöld biðji múslima afsökunar.

Leiðtogar múslima víða um heim hafa mótmælt birtingu myndbandsins sem sýnir Múhameð spámann í líki kameldýrs sem drekkur bjór ásamt drukknum hryðjuverkamönnum sem gera árás á Kaupmannahöfn.

Myndbandið var gert í ágúst af liðsmönnum Þjóðarflokksins og var sýnt á dönsku sjónvarpsstöðinni TV2 fyrr í þessum mánuði.

Loka varð sendiráði Dana í nokkrar vikur í febrúar vegna mótmæla við birtingu skopmynda af Múhameð spámanni í Jyllands-Posten.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert