Sænsk blöð skýra frá því í dag, að Anders Borg, fjármálaráðherra, hafi greitt barnfóstrum „svart" á sínum tíma til að losna við að greiða virðisaukaskatt af laununum. Tveir sænskir ráðherrar hafa orðið að segja af sér embætti á síðustu dögum þótt aðeins séu 10 dagar frá því stjórnin tók við völdum.
Maria Borelius sagði af sér um síðustu helgi, m.a. vegna þess að hún hafði greitt barnfóstrum undir borðið en einnig komu upp ýmislegt annað tengt fjármálum hennar. Í gær sagði Cecilia Stegö Chilò, menningarmálaráðherra, af sér en hún hafði bæði greitt barnfóstrum svart og ekki greitt afnotagjald af sænska ríkisútvarpinu í 16 ár. Hún varð einnig uppvís að því í viðtali, að hún vissi ekki að hún bæri sem menningarmálaráðherra ábyrgð á íþróttamálastefnu landsins.