Danska blaðið BT segist hafa látið rannsaka sýni, tekin á salernum í Kristjánsborgarhöll, danska þinghúsinu í Kaupmannahöfn og niðurstaðan hafi leitt í ljós kókaínleifar. Sýnin voru tekin á salerni í þeirri álmu byggingarinnar þar sem þingmenn og starfsmenn eru með skrifstofur.
BT segist hafa tekið sýni á þrjátíu salernum í þinghúsinu og síðan notað sama efnapróf og lögreglan notar við rannsókn á fíkniefnamálum. Í ljós hafi komið að á þremur salernum voru leifar af kókaíni. Segir lögreglan enga ástæðu til að draga þessar niðurstöður í efa.
Blaðið hefur eftir Peter Skaarup, formanni dómsmálanefndar danska þingsins, að hann muni taka málið upp við forsætisnefnd þingsins. „Það er ekki gott að vita til þess að einhver noti kókaín í Folketinget. Það er afar óheppilegt sé þetta rétt. Ég á erfitt með að trúa, að það séu þingmenn eða starfsmenn þingsins, sem hagi sér svona," hefur blaðið eftir Skaarup.