Ísraelskir hermenn felldu táning og konu á Gasa-svæðinu í dag

Tveir Palestínumenn féllu á norðanverðu Gasa-svæðinu í morgun þegar ísraelskir hermenn skutu á þá, að sögn Palestínumanna. Ísraelsher réðst inn í tvo bæi, bæði gangandi og á skriðdrekum. Ísraelsstjórn vill herða á aðgerðum gegn þeim herskáu Palestínumönnum sem skjóta eldflaugum að Ísrael. Palestínumennirnir sem féllu snemma morguns voru 16 ára drengur og 39 ára kona. Tveir Hamas-liðar höfðu áður verið felldir.

Eldflaug frá Gasa lenti í gær í grunnskóla skömmu áður en nemendur mættu til hans. Á norðanverðu Gasa komu leyniskyttur Ísraela sér fyrir á fjölda húsþaka í bæjunum Beit Hanoun og Jebaliya. Þrjár táningsstúlkur særðust þegar þær urðu fyrir skotum hermanna fyrir utan skóla í Beit Hanoun.

Vopnaðir menn undir forystu vopnaðs vængs Hamas skutu á hermenn í báðum bæjum, beittu jarðsprengjum og skriðdrekaflaugum. Einn hermaður særðist. Jarðýta Ísraelsher keyrði inn í byggingu og tók hana á sitt vald, en þar átti Hamas-leiðtogi að búa.

Herskáir Palestínumenn skutu í það minnsta sex eldflaugum að Ísrael í dag, þar af lenti ein í bænum Sderot. Engan sakaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert