Rústir hallar Haraldar hárfagra fundnar

Norskir fornleifafræðingar telja sig hafa fundið rústir hallar Haraldar hárfagra Noregskonungs á Avaldsnesi á Karmøy, sem er suður af Haugasundi á vesturströnd Noregs. Um er að ræða elsta konungssetur í landinu en á þessum stað bjuggu höfðingjar og konungar frá því um 1500 fyrir Krist fram að miðöldum.

Haraldur hárfagri var konungur í Noregi á tímabilinu frá 872 til 933 og talið er að hann hafi reist höll sína í kringum 870. Fleiri konungar reistu þarna byggingar þar til Hansakaupmenn brenndu þær árið 1368.

Fram kemur á fréttavef Aftenposten, að fornleifafræðingar hafi stundað uppgröft á Avaldsnesi undanfarin 13 ár og nú hafi aldursrannsóknir leitt í ljós, að rústir konungshallarinnar séu fundnar. Haft er eftir Dagvinn Skre, prófessor, að þessi fundur hafi mikla þýðingu fyrir Noregssöguna og varpi ljósi á þann tíma sem Noregur varð eitt konungdæmi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert