Loka landamærum til að koma í veg fyrir peningaflutning inn á Gaza

Ismail Haniya
Ismail Haniya AP

Ísraelar fyrirskipuðu að landamærunum milli Gaza og Egyptalands yrði lokað til að koma í veg fyrir að forsætisráðherra Palestínu, Ismail Haniya, gæti komið með tugir milljóna Bandaríkjadala yfir landamærin. Haniya hefur verið á ferð um arabaríkin og Íran þar sem hann hefur safnað fé fyrir sjálfstjórnarsvæði Palestínumanna.

Samkvæmt frétt AFP fréttastofunnar eru fjölmargir stuðningsmenn Hamas-hreyfingarinnar á leið til landamærastöðvarinnar Rafah til þess að mótmæla því að landamærunum hafi verið lokað.

Varnarmálaráðherra Ísraels, Amir Peretz, fór fram á lokunina en Haniya hafði flýtt heimförinni vegna innanríkisátaka á milli Hamas og Fatah-hreyfingarinnar. Hann kemst hins vegar hvorki lönd né strönd frá Egyptalandi vegna þess að landamærin hafa verið lokuð í dag.

Erfiðleikar hafa steðjað að ríkisstjórn Haniya vegna efnahagsþvingana erlendis frá og hefur því ekki verið hægt að greiða 165 þúsund ríkisstarfsmönnum laun. Leiðtogar Hamas hafa því brugðið á það ráð að smygla milljónum Bandaríkjadala á sjálfstjórnarsvæði Palestínumanna til þess að koma í veg fyrir að ríkisstjórnin verði að fara frá völdum.

Samkvæmt upplýsingum frá háttsettum manni innan palestínska stjórnkerfisins er Haniya með 35 milljónir Bandaríkjadala í farteskinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert