Yfirdómari hæstaréttar í Írak, Aref Abdul-Razzaq al-Shahin, sagði í dag að taka ætti Saddam Hussein, fyrrverandi Íraksforseta, af lífi innan 30 daga. Áfrýjunardómstóll staðfesti í dag dauðadóm yfir honum. Hussein verður hengdur samkvæmt íröskum lögum staðfesti forseti og varaforsetar Íraks dóminn.
Tveir aðrir fyrrum ráðherrar í stjórn Husseins voru einnig dæmdir til dauða í nóvember s.l. fyrir morð á 148 sjítum í bænum Dujail árið 1982. Sky sagði frá þessu.
Hæstiréttur staðfesti með þessu niðurstöðu dómstóls í Bagdad, sem kveðinn var upp 5. nóvember og sætti harðri gagnrýni mannréttindasamtaka. Dómurinn var kveðinn upp yfir Saddam og samverkamönnum hans fyrir að láta myrða 148 manns í Dujail, þorpi sjía-múslima, árið 1982. Nú standa yfir önnur réttarhöld yfir Saddam og fleiri samverkamönnum hans vegna annarrar ákæru.
Jalal Talabani, forseti Íraks, og tveir varaforsetar landsins verða að staðfesta dauðadóminn. Talabani er andvígur dauðarefsingu en hefur áður falið varaforseta að staðfesta dauðadóma fyrir sína hönd.
Talsmaður áfrýjunardómstólsins sagði að dómkerfið í Írak muni tryggja að Saddam verði tekinn af lífi þótt Talabani og varaforsetarnir staðfesti ekki dauðadóminn.
Dómstóllinn staðfesti einnig dauðadóm yfir Barzan Ibrahim, hálfbróður Saddams, en hann var yfirmaður írösku leyniþjónustunnar, og dauðadóm yfir Awad Hamed al-Bandar, yfirmanni byltingardómsóls Íraks, sem kvað upp dauðadóm yfir íbúum Dujail.
Þá komst áfrýjunardómstóllinn að þeirri niðurstöðu, að ævilangir fangelsisdómar yfir tveimur fyrrum varaforsetum Íraks væru of vægir og vísaði málum þeirra aftur til undirréttar.
Í réttarhöldunum hélt Saddam því fram, að íbúarnir í Dujail hefðu verið teknir af lífi í samræmi við niðurstöðu lögmæts dómstóls í landinu þar sem íbúarnir hefðu reynt að ráða Saddam af dögum árið 1982.