Íranska þingið samþykkti í dag lög sem heimila stjórnvöldum að endurskoða samstarf við kjarnorkueftirlitsnefnd Sameinuðu þjóðanna. Var frumvarpið samþykkt í kjölfar þess að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti refsiaðgerðir gagnvart Írönum fyrir að fara ekki að ályktunum SÞ um að hætta auðgun úrans.
Mikill meirihluti þingmanna samþykkti frumvarpið en 167 þingmenn voru því fylgjandi en 21 á móti.
Samkvæmt lögunum er stjórnvöldum heimilt að hætta samstarfi við kjarnorkueftirlit Sameinuðu þjóðanna. Jafnframt geta lögin hamlað starfsemi kjarnorkueftirlitsins í Íran og komið í veg fyrir að það geti fylgst með kjarnorkuverum í Íran og þeirri starfsemi sem þar fer fram.
Í ályktun öryggisráðsins, sem samþykkt var samhljóða á fundi öryggisráðsins á laugardag, er lagt bann við að útvega Írönum hráefni til kjarnorkuvinnslu og einnig verða ýmsar eignir Írana í útlöndum frystar. Bandarískir embættismenn höfðu þrýst á harðari aðgerðir.
Þá er þess krafist í ályktuninni, að Íranar hætti allri vinnu við auðgun úrans en auðgað úran er bæði notað sem eldsneyti fyrir kjarnorkuver og til að smíða kjarnorkusprengjur.