Nouri al-Maliki, forsætisráðherra Íraks, segir í viðtali við bandaríska dagblaðið Wall Street Journal, að hann hafi enga ánægju af starfi sínu og vildi gjarnan hverfa frá því áður en núverandi kjörtímabili lýkur. Hann segist ekki ætla að sækjast eftir endurkjöri.
„Ég vildi ekki taka við þessu embætti. Ég samþykkti það aðeins vegna þess að ég taldi það þjóna hagsmunum Írak en ég mun ekki samþykkja slíkt aftur."
Málamiðlun náðist um að al-Maliki tæki við embætti forsætisráðherra í þjóðstjórn Íraks í maí á síðasta ári en stjórnartíð hans hefur einkennst af miklum flokkadráttum og blóðugum átökum trúarfylkinga og þjóðflokka. Þá er talið að bandarísk stjórnvöld hafi litla trú á al-Maliki.
Forsætisráðherrann er einn af forustumönnum hreyfingar sjía-múslina, sem barðist á sínum tíma gegn Saddam Hussein, fyrrum forseta landsins. Hann tók við embætti forsætisráðherra eftir að súnní-múslimar og Kúrdar höfnuðu fyrsta kandídat sjíta í embætti.
Frá því al-Maliki tók við embætti hafa verið deilur innan raða sjíta og súnnítar hafa sakað hann um að beita sér ekki gegn dauðasveitum sjíta. Í lok síðasta árs birti blaðið New York Times minnisblað frá þjóðaröryggisráðgjafa Bandaríkjaforseta, þar sem fram komu efasemdir um leiðtogahæfileika al-Malikis. George W. Bush, Bandaríkjaforseti, hefur hins vegar lýst trausti á íraska forsætisráðherranum.
Al-Maliki hefur á móti sakað Bandaríkjamenn um að vanmeta styrk íraskra uppreisnarmanna og hafi ekki útvegað íröskum hersveitum næg hergögn og þjálfun.
Hann segist þó í viðtalinu við Wall Street Journal trúa því að friður komist á í Írak. „Ef ég hefði ekki von um það væri ég ekki hér nú," segir hann.