Helstu ráðgjafar Georges W. Bush, Bandaríkjaforseta, eru ósammála um hvort rétt sé að senda liðsauka til Íraks og einnig eru þeir ósammála um afstöðuna til ríkisstjórnar Nuris al-Malikis, forsætisráðherra Íraks. Óttast sumir, að al-Maliki muni ekki veita Bandaríkjaher nægan stuðning og koma fram nauðsynlegum pólitískum endurbótum sem geri Bandaríkjamönnum á endanum kleift að fara frá Írak.
Búist er við að Bush tilkynni í næstu viku að hermönnum í Írak verði fjölgað um allt að 20 þúsund á næstunni. Blaðið Washington Post hafði í dag eftir embættismönnum, að bandaríska herráðið telji að ókostir við að senda slíkan liðsauka til Íraks séu mun fleiri en kostirnir. Benda þeir á, að Bandaríkjaher sé þegar með meira lið í Afganistan og Írak en hann má við með góðu móti og aðeins sé hægt að útvega þessa 20 þúsund hermenn með ýmsum óvinsælum aðgerðum, svo sem að kalla til varalið og lengja dvalartíma hermanna í Írak.
Háttsettir bandarískir embættismenn óttast einnig, að írösk stjórnvöld muni ekki, eða geti ekki, bælt niður herskáa sjíta og að pólitísk öfl í röðum sjíta muni ekki koma fram nauðsynlegum umbótum í stjórnkerfinu sem muni koma minnihluta súnníta til góða en herskáir súnnítar hafa stýrt uppreisninni gegn Bandaríkjaher í Írak.
Einnig eru efasemdir um að íraski herinn sé til mikils gagns við að styðja við aðgerðir Bandaríkjahers í Írak. Er bent á að liðhlaup sé mikið úr Íraksher.