Allar kærur gagnvart Saddam Hussein hafa verið felldar niður

Saddam Hussein situr ekki lengur við hlið annarra sakborninga í …
Saddam Hussein situr ekki lengur við hlið annarra sakborninga í Bagdad. Reuters

Anfal-réttarhöldin yfir Saddam Hussein hófust á nýjan leik í dag, en á níunda áratugnum voru 180.000 Kúrdar teknir af lífi í svokallaðri Anfal-herferð Íraksforseta. Sæti fyrrum Íraksforseta var autt en níu dagar eru liðnir frá því Hussein var hengdur. Fyrsta mál á dagskrá réttarins var því að fella niður allar kærur gagnvart Hussein.

Sex samverkamenn Husseins þurfa þó enn að svara fyrir gjörðir sínar. Þeir eru sakaðir um stríðsglæpi og glæpi gegn mannkyni fyrir aðild þeirra að Anfal-herferðinni sem fór fram á árunum 1980 til 1988 þegar Írakar og Íranar áttu í stríðsátökum.

Stuttu eftir að rétturinn kom saman í dag kallaði réttarþjónninn nöfn sakborninganna sex og mennirnir sex gengu hljóðir inn í réttarsalinn, hver á fætur öðrum.

Mohammed Oreibi al-Khalifa, sem er yfirdómari í málinu, sagði að rétturinn hefði ákveðið að stöðva öll málaferli sem hafa beinst að Saddam Hussein þar sem staðfest væri hann hann hefði verið tekinn af lífi.

Íraksforsetinn fyrrverandi var hengdur þann 30. desember sl. Ríkisstjórn Íraks, þar sem sjíta eru í meirihluta, hefur verið harðlega gagnrýnd víða um heim vegna þess hvernig staðið var að aftökunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert