Þremur lagaprófessorum rænt í Bagdad

Reuters

Þremur prófessorum við lagaháskólann í Bagdad hefur verið rænt auk eins nemanda, samkvæmt upplýsingum frá menntamálaráðuneyti Íraks. Fjórmenningunum var rænt í gær þegar þeir voru að yfirgefa byggingu skólans í hverfi sjíta í borginni.

Í yfirlýsingu frá ráðuneytinu kemur fram að mannránið er fordæmt og árásir gegn prófessorum við háskóla landsins. Er þess krafist að ríkisstjórn Íraks tryggi öryggi háskóla í landinu.

Frá því að Saddam Hussein, fyrrverandi forseti landsins, var hrakinn frá völdum í apríl 2003 hafa 185 háskólaprófessorar týnt lífi og 52 verið rænt af mannræningjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka