Harry Bretaprins væntanlega sendur til Írak

Harry Bretaprins
Harry Bretaprins Reuters

Varnarmálaráðherra Bretlands mun í dag greina breska þinginu frá því hvort Harry prins verður sendur til Íraks. Ef herdeild Harrys fer til Íraks verður hún staðsett í nágrenni Basra í suðurhluta landsins.

Varnarmálaráðuneytið hefur áður staðfest að Harry gæti verið sendur til Íraks ef herdeild hans verður send til Íraks en svo gæti farið að Harry yrði haldið frá átakasvæðum þar sem vera hans gæti teflt lífi félaga hans í hættu.

Harry, sem útskrifaðist frá Konunglega herskólanum í Sandhurst á síðasta ári, greindi frá því árið 2005 í viðtali að hann vildi berjast fyrir land sitt.

Faðir Harrys, Karl Bretaprins var flugmaður í flugher Bretlands og starfaði einnig í konunglega flotanum. Afi Harrys, Filip prins, var einnig í breska hernum á tímum seinni heimstyrjaldarinnar. Föðurbróðir Harrys, Andrew, var flugmaður í breska hernum og barðist meðal annars í Falklandseyjastríðinu árið 1982.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka