Gert er ráð fyrir áframhaldandi vetrarveðri í Danmörku í dag og töfum á umferð vegna áframhaldandi snjókomu og skafrennings. "Það eru líkur á að ástandið verði enn verra á föstudag en það var á fimmtudag vegna þess að það er þegar snjór á götunum og vegna þess að fimm til tíu sentímetra nýr snjór mun leggjast ofan á hann," segir Jesper Eriksen, veðurfræðingur hjá dönsku veðurstofunni, DMI. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands Posten.
Í morgun er talið að um hundrað ökumenn hafi setið fastir á vegum víðs vegar um Danmörku auk þess sem rúmlega 300 ökumenn hafa skilið bíla sína eftir fasta hér og þar. Er fólki ráðlagt að halda sig heima við í dag til að koma í veg fyrir enn meira umferðaröngþveiti.
Verst er ástandið á austanverðu Jótlandi og í Árósum varar lögregla fólk alfarið við því að hreyfa bíla sína.
Eitt banaslys er rakið til ófærðarinnar en í morgun lét bílstjóri saltdreifingarbíls er hann lenti í árekstri við flutningabíl í Svendborg. Þá sitja 17 lestarfarþegar fastir í lestarvagni í nágrenni Thisted þar sem lestin sem þeir eru í kemst hvorki aftur á bak né áfram.