Hækkandi sjávarborð ógnar sögufrægum byggingum í Bergen

Bryggjan í Bergen.
Bryggjan í Bergen.

Loftslagsbreytingar og hækkandi sjávarborð eru alvarleg ógn við hið gamla sögufræga bryggjuhverfi í Bergen, Bryggen, en þar eru minjar allt frá víkingatímanum. Húsin sem nú standa á Bryggen eru frá byrjun átjándu aldar og voru byggð af Hansakaupmönnum. Sérfræðingar víða að koma saman til skrafs og ráðagerða í Bergen í júní í leit að leiðum til að bjarga hverfinu.

Frá þessu greinir fréttavefur Aftenposten. Þar segir að hluti Bryggen hafi undanfarið sigið um átta millimetra á ári, og óttist sumir sérfræðingar að hverfið hrynji. Byggingaverkfræðingar frá Danmörku, Póllandi, Hollandi og Bretlandi eru væntanlegir til funda með norskum starfsbræðrum sínum í júní.

Fimmtán sinnum í vetur hefur flætt yfir bryggjuna, og nú er óttast að hækkandi sjávarborð kunni einnig að ógna stórum hluta miðborgarinnar. Bráðnun norðurskautsíssins kann að valda hækkun sjávarborðsins þannig að eftir um hálfa öld flæði sjór inn á neðstu hæðir húsanna á bryggjunni. Langtímaspár hljóða upp á, að teinar á brautarstöðinni í miðborginni og neðstu hæðir húsa við höfnina kunni einnig að fara á kaf.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert