Fulltrúi Bandaríkjaþings krefst svara í máli berklasýkts manna

Bennie Thompson, formaður heimavarnarnefndar Bandaríkjaþings, hefur krafist svara við því hvernig maður með skæða berklasýkingu komst inn í landið frá Kanada en maðurinn hafði verið settur á lista landamæravarða yfir hættulega menn. Manninum varhleypt athugasemdalaust yfir landamærin til bandaríkjanna þrátt fyrir að landamæraverðir hefðu undir höndum upplýsingar um að hann bæri hættulegan smitsjúkdóm og að reyndi hann að komast inn í landið ætti að handtaka hann og setja hann í einangrun. Þetta kemur framá fréttavef CNN.

"Við höfum tvær opinberar stofnanir sem hefðu átt að vera í stöðugu sambandi hvor við aðra þannig að það er greinilegt að eitthvað í kerfinu brást,” segir Thompson. "Herra Speaker hefði ekki átt að komast til Kanada og þaðan til Bandaríkjanna án þess að yfirvöld vissu af honum. Kerfið virkaði greinilega ekki.”

Staðfest hefur verið að maðurinn, Andrew Speaker sem er lögfræðingur frá Atlanta, sýndi vegabréf sitt við landamærin og hefur landamæraverðinum sem hleypti honum yfir landamærin verið vikið tímabundið frá störfum. Áður hefur komið fram að Speaker flaug með áætlunarflugi til Kanada frá Prag þar sem hann vissi að hann væri á bannlista yfir flugfarþega til Bandaríkjanna og ók þaðan yfir landamærin til Bandaríkjanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert