Arndísi Þórarinsdóttur
david@mbl.is, arndis@mbl.is
Rússnesk stjórnvöld hafa ákveðið að taka aftur upp reglulegt eftirlitsflug út fyrir lofthelgi Rússlands og komu rússneskar flugvélar þrisvar inn á eftirlitssvæði Íslands í gær.
Heimildarmaður Morgunblaðsins sagði rússnesku vélarnar hafa komið úr norðri og flogið meðfram ströndinni. Íslensk stjórnvöld fylgdust með þeim allan tímann og skiptust á upplýsingum við stjórnstöðvar bæði í Noregi og Bretlandi. Breskar og norskar þotur flugu svo í veg fyrir rússnesku vélarnar og fylgdu þeim eftir, en það eru stöðluð viðbrögð Atlantshafsbandalagsins, NATO, í tilfellum sem þessu.
Grétar Már Sigurðsson, ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu, vildi ekki tjá sig að svo stöddu um málið. Hann sagðist þó myndu kalla rússneska sendiherrann á Íslandi á sinn fund eftir helgi og leita skýringa.
Vladímír Pútín Rússlandsforseti greindi frá þessari breyttu varnarmálastefnu Rússa í gær en fjórtán langdrægar sprengju- og könnunarvélar munu hafa hafið eftirlitið.
"Flugmenn okkar hafa verið fastir á jörðu niðri of lengi. Þeir eru ánægðir að komast í loftið á ný," sagði Pútín. Í kalda stríðinu flugu sovéskar sprengjuvélar reglulega inn á svæði þaðan sem hæglega hefði mátt skjóta stýriflaugum með kjarnaoddum á skotmörk í Bandaríkjunum. Slíkar aðgerðir lögðust hins vegar af við hrun Sovétríkjanna. Pútín harmaði í gær að frá 1992 hefði Rússland hætt eftirlitsflugi á fjarlægum slóðum. Það hefði valdið vandræðum í öryggismálum Rússlands enda hefðu aðrir ekki fylgt fordæmi þeirra. Virtist Pútín þar vera að vísa til Bandaríkjamanna.
Sjá nánar í Morgunblaðinu í dag.