Áhrifamenn hvetja kínversk stjórnvöld til aðgerða á Búrma

Reuters

Tuttugu áhrifamenn í stjórnmálum víða um heim, þar á meðal Lionel Jospin, fyrrverandi forsætisráðherra Frakklands og Mary Robinson, fyrrum forseti Írlands, hvetja kínversk stjórnvöld til þess að beita áhrifum sínum til þess að þrýsta á herforingjastjórnina á Búrma að hefja viðræður við stjórnarandstöðuna.

Fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, Kjell Magne Bondevik, kom beiðninni á framfæri í bréfi til Hu Jintao, forseta Kína, í sendiráði Kína í Ósló.

Í bréfinu kemur fram að þeir sem skrifa undir bréfið telji að aðkoma kínverskra stjórnvalda skipti sköpum í því að koma á friðsamlegum viðræðum milli stjórnar- og stjórnarandstöðu á Búrma.

Aung San Suu Kyi, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, er reiðubúin til viðræðna við leiðtoga herforingjastjórnarinnar, Than Shwe. Í bréfinu er tekið undir ítrekaða beiðni alþjóðasamfélagsins að stjórnvöld á Búrma láti Aung San Suu Kyi úr haldi en hún hefur síðustu 18 árin verið meira og minna í stofufangelsi.

Gro Harlem Brundtland, fyrrum forsætisráðherra Noregs, fyrrverandi forseti Brasilíu, Fernando Henrique Cardoso, fyrrum forseti Filippseyja, Corazon Aquino, og fyrrum forseti Tékklands, Vaclav Havel, eru meðal þeirra sem skrifa undir bréfið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert