Tuttugu áhrifamenn í stjórnmálum víða um heim, þar á meðal Lionel Jospin, fyrrverandi forsætisráðherra Frakklands og Mary Robinson, fyrrum forseti Írlands, hvetja kínversk stjórnvöld til þess að beita áhrifum sínum til þess að þrýsta á herforingjastjórnina á Búrma að hefja viðræður við stjórnarandstöðuna.
Fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, Kjell Magne Bondevik, kom beiðninni á framfæri í bréfi til Hu Jintao, forseta Kína, í sendiráði Kína í Ósló.
Í bréfinu kemur fram að þeir sem skrifa undir bréfið telji að aðkoma kínverskra stjórnvalda skipti sköpum í því að koma á friðsamlegum viðræðum milli stjórnar- og stjórnarandstöðu á Búrma.
Aung San Suu Kyi, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, er reiðubúin til viðræðna við leiðtoga herforingjastjórnarinnar, Than Shwe. Í bréfinu er tekið undir ítrekaða beiðni alþjóðasamfélagsins að stjórnvöld á Búrma láti Aung San Suu Kyi úr haldi en hún hefur síðustu 18 árin verið meira og minna í stofufangelsi.
Gro Harlem Brundtland, fyrrum forsætisráðherra Noregs, fyrrverandi forseti Brasilíu, Fernando Henrique Cardoso, fyrrum forseti Filippseyja, Corazon Aquino, og fyrrum forseti Tékklands, Vaclav Havel, eru meðal þeirra sem skrifa undir bréfið.