Kviðdómur í Kansas í Bandaríkjunum hefur komist að þeirri niðurstöðu að kona, sem fundin var sek um að myrða konu og skera ófætt barn úr kviði hennar, skuli tekin af lífi. Dómari mun kveða upp dóm síðar en hann sagði við kviðdóminn, að hann sé bundinn af niðurstöðu hans.
Lisa Montgomery, sem er 39 ára, var í vikunni fundin sek um að hafa rænt vinkonu sinni, Bobbie Jo Stinnett, og myrt hana árið 2004. Montgomery skar síðan ófætt barn úr kviði Stinnett en var handtekin daginn eftir í Kansas þar sem hún var að sýna kunningjum barnið og sagðist eiga það sjálf.
Vísbendingar voru um að Montgomery hefði skipulagt ódæðið og m.a. aflað sér upplýsinga á netinu um hvernig gera ætti keisaraskurð. Verjandi hennar bað henni griða og sagði skjólstæðing sinn hafa sætt langvinnum andlegum og kynferðislegum misþyrmingum í æsku.