Stjórnvöld í Rússlandi hafa ákært Garrí Kasparov, einn helsta leiðtoga stjórnarandstöðunnar í landinu, fyrir að sýna mótþróa við handtöku og skipuleggja mótmælaaðgerðir án heimildar. Kasparov var handtekinn í Moskvu í dag á mótmælafundi stjórnarandstæðinga gegn stjórnvöldum í Kreml.
Samtökin Annað Rússland, sem Kasparov stýrir, skipulögðu mótmælafundinn í dag en honum var ætlað að vekja athygli á því, að kosningabaráttan fyrir þingkosningar, sem haldnar verða í desemberbyrjun, hafi ekki verið frjáls og óháð. Almennt er búist við að flokkar hliðhollir Vladímír Pútín, forseta, vinni auðveldan sigur.
Annað Rússland eru regnhlífasamtök stjórnarandstöðuflokka og samtaka af ýmsu tagi og á báðum vængjum stjórnmálalitrófsins, sem eiga það sameiginlegt að vera á móti Pútín. Það þykir til marks um, að fylkingunni vex ásmegin, að einn af leiðtogum viðurkennds stjórnarandstöðuflokks sótti mótmælafundinn í dag.
Óeirðalögregla greip til aðgerða þegar um 150 þátttakendur í mótmælafundi í miðborg Moskvu ruddist gegnum raðir lögreglumanna í átt að húsnæði yfirkjörstjórnar Rússlands. Vildi fólkið afhenda kjörstjórninni mótmælaskjal en frambjóðendur Annars Rússlands fá ekki að bjóða sig fram í þingkosningunum.
Aðstoðarmaður Kasparovs segir, að lögregla hafi barið hann áður en hann var settur inn í lögreglubíl.