Bandaríkin gagnrýna Rússa

Bandaríkjastjórn gagnrýndi undir kvöld viðbrögð rússneskra stjórnvalda við mótmælafundum, sem fóru fram í Moskvu í gær og St. Pétursborg í dag. Óeirðalögregla handtók tugi fundargesta í báðum borgum, þar á meðal Garrí Kasparov og fleiri stjórnarandstöðuleiðtoga.

„Bandaríkin hafa áhyggjur af þeim harðneskjulegu aðferðum, sem rússnesk stjórnvöld hafa notað gegn mótmælendum í Moskvu og víðar," sagði Sean McCormack, talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins, í yfirlýsingu.

„Við höfum einkum áhyggjur af handtöku leiðtoga stjórnarandstöðunnar, þar á meðal Garrís Kasparovs, og hvetjum til þess að þeir fái aðgang að lögfræðiaðstoð og réttláta meðferð í dómskerfinu."

Kasparov var í gær dæmdur í 5 daga fangelsi fyrir að hlýða ekki fyrirskipunum lögreglu. Í dag var Borís Nemtsov, einn af helstu leiðtogum rússnesku stjórnarandstöðunnar, handtekinn ásamt um 200 öðrum í St. Pétursborg.

Vika er þar til þingkosningar fara fram í Rússlandi. Yfirkjörstjórn landsins neitaði að samþykkja frambjóðendur á vegum Annars Rússlands, regnhlífarsamtaka sem Kasparov stýrir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert