Eiginkona Bretans, sem var týndur í fimm ár en birtist um helgina á lögreglustöð og sagðist hafa misst minnið, hefur nú viðurkennt að hafa vitað að maður hennar var á lífi. Maðurinn var formlega lýstur látinn árið 2003 og líftrygging hans var greidd út.
Anne Darwin flutti til Panama fyrir nokkrum vikum. Hún viðurkenndi í samtölum við blaðamenn í gærkvöldi, að mynd, sem birtist í breskum fjölmiðlum í vikunni, væri af þeim hjónum og hefði verið tekin í Panama á síðasta ári.
Hún segist þó ekki hafa komist að raun um, að maður hennar væri á lífi fyrr en nokkrum árum eftir að hann hvarf árið 2002. Hún segist nú ætla að snúa heim til Bretlands þótt hennar bíði þar hugsanlega fangelsisvist.
John Darwin, sem er 57 ára, birtist skyndilega á lögreglustöð í Lundúnum á laugardag og sagði: „Ég held að ég sé týndur!"
Anne Darwin, sem er 55 ára, segir að hún hafi upphaflega talið að eiginmaður hennar hefði látið lífið í róðrarslysi en komist að raun um annað þegar maður hennar hafði samband við hana nokkrum árum síðar.
John Darwin var yfirheyrður á lögreglustöð í gærkvöldi vegna gruns um tryggingasvik.