Segir útskýringar stjórnvalda á dauða Bhutto lygi

Náinn aðstoðarmaður Benazir Bhutto, sem var myrt í sprengjutilræði í Pakistan í gær, hafnar útskýringum ríkisstjórnar landsins á því hvað dró Bhutto til dauða. Hann segir stjórnvöld fara með ósannindi í málinu.

Innanríkisráðuneyti Pakistans sagði í dag að Bhutto hafi látist af völdum höfuðhöggs sem hún hlaut þegar hún rak höfuðið í sóllúgu í bifreiðinni sem hún var að ferðast í. Ráðuneytið sagði að Bhutto hefði verið að reyna að beygja sig í kjölfar árásinnar. Hvorki byssukúlur né sprengjubrot hafi fundist í líkinu.

„Það er ekkert hæft í þessu. Þetta er lygi,“ sagði Farooq Naik, lögmaður Bhutto og samflokksmaður hennar. 

„Einkaritari Bhutto, Naheed Khan, og flokksmaður hennar Makhdoom Amin Fahim voru í bifreiðinni og sáu hvað gerðist,“ sagði hann.

„Þetta er óbætanlegur skaði og þeir eru að snúa þessu upp í grín með yfirlýsingum sem þessum. Landið er á barmi borgarastyrjaldar.“

Benazir Bhutto sést hér á fjöldafundi í Pakistan á öðrum …
Benazir Bhutto sést hér á fjöldafundi í Pakistan á öðrum degi jóla. AP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert