Neitar aðild að morðinu

Baitullah Mehsud, sem talinn er leiðtogi al-Qaeda hryðjuverkasamtakanna í Pakistan, neitaði í dag aðild að morðinu á Benazir Bhutto, fyrrum forsætisráðherra landsins, en kenndi pakistönskum stjórnvöldum um. Aðstoðarmaður Bhutto vísaði í dag á bug skýringum stjórnvalda á því hvernig Bhutto lést.

„Hann átti enga aðild að árásinni," sagði  Maulana Omar, talsmaður Mehsuds, við AFP fréttastofuna. „Þetta er samsæri ríkisstjórnarinnar, hersins og leyniþjónustunnar.

Omar hringdi frá Waziristan héraði í Pakistan þar sem hersveitir stjórnarhers landsins hafa barist við herskáa íslamista.

„Það stríðir gegn hefðum ættbálkanna að ráðast á konu," sagði Omar og sagðist lýsa mikilli hryggð yfir fráfalli Bhutto. „Benazir var ekki aðeins leiðtogi Pakistans heldur einnig leiðtogi sem naut alþjóðlegrar hylli," sagði hann.

Pakistanstjórn birti í gær útskrift af símtali, sem Mehsud var sagður hafa átt við félaga sinn þar sem þeir ræddu um morðið á Bhutto. Talsmaður innanríkisráðuneytisins sagði einnig, að Bhutto hefði látist vegna höfuðhöggs sem hún hlaut þegar hún rak höfuðið í handfang á sóllúgu í bíl sínum þegar hún leitaði skjóls undan skothríð og sprengingu. Engar kúlur eða sprengjubrot hefðu fundist í líki Bhutto.

Sherry Rehman, talsmaður Bhutto, sagðist í morgun hafa verið í hópnum, sem baðaði lík hennar fyrir útförina í gær. Sagðist hún í morgun hafa séð sár eftir kúlu aftan á hálsi hennar og annað sár þar sem kúlan fór út.

„Við gátum ekki einu sinni þvegið líkið almennilega vegna þess að blóð vætlaði enn úr sárunum," sagði Rehman, sem fullyrti, að sjúkrahúsið hefði verið neytt til að breyta yfirlýsingu sinni um dánarorsök. „Þetta er fáránleg vitleysa og það er verið að breiða yfir það sem gerðist í raun."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert