Grímuklæddir byssumenn myrtu í dag stuðningsmann Benazir Bhutto, fyrrum leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Pakistans sem lést í tilræði á fimmtudag. Upplausnarástand ríkir í landinu eftir morðið á Bhutto. Uppreisnarmenn úr röðum al-Qaeda hafa verið sakaðir um að hafa myrt hana. Þeir neita sök.
Stjórnvöld í Pakistan sögðu í gær að þau hafi undir höndunum sönnunargögn að al-Qaeda hafi staðið á bak við árásina. Að sögn fréttastofu Reuters hefur neyðarástand skapast í landinu í kjölfar fráfalls Bhutto og víða hefur komið til blóðugra átaka.
Talsmaður al-Qaeda leiðtogans sem sakaður hefur verið um að fremja ódæðisverkið hefur neitað allri sök. Þá hafa flokksfélagar Bhutto vísað á bug útskýringum yfirvalda á því hvernig hún hafi látist. Þeir segja að stjórn Pervez Musharraf, forseta Pakistans, reyni nú að hylma yfir sitt eigið klúður, þ.e. að þeim hafi ekki tekist að halda verndarhendi yfir Bhutto.
Mikil spenna ríkir í Pakistan. Mótmælendur hafa m.a. kveikt í verslunum, bifreiðum og ýmsum byggingum í nótt.
Að sögn sjónvarvotta eru óeirðir víða og margir hafa farið ránshendi um hverfi.
Alls hafa 33 látist í átökum sem brutust út eftir morðið á Bhutto sl. fimmtudag. Óttast er að fyrirhugum kosningum í landinu, sem fram eiga að fara 8. janúar nk., verði frestað. Tilgangurinn með kosningunum er að koma á lýðræði í landinu eftir átta ára valdatíð hersins.