Clinton vill alþjóðlega rannsókn á dauða Bhutto

Hillary Clinton á kosningafundi í Dubuque í Iowa í gær.
Hillary Clinton á kosningafundi í Dubuque í Iowa í gær. Reuters

Hillary Rodham Clinton, sem sækist eftir útnefningu sem forsetaefni Demókrataflokksins í Bandaríkjunum, sagði í gær að mikilvægt væri að alþjóðleg rannsókn færi fram á dauða Benazir Bhutto, fyrrum forsætisráðherra Pakistans, vegna þess að engin ástæða væri til að treysta ríkisstjórn Pakistans. 

Pakistansstjórn hefur hins vegar hafnað kröfum um alþjóðlega rannsókn og segir enga þörf á henni því vitað sé hverjir hafi staðið á bak við morðárásina á Bhutto á fimmtudag. Kennir stjórnin hryðjuverkasamtökunum al-Qaeda og talibönum í Afganistan um.

Í viðtali, sem birtist á fréttavefnum Newsday.com í gær, gaf Clinton til kynna að her Pakistans hafi hugsanlega staðið á bak við morðið á Bhutto.

„Sumir segja að al-Qaeda hafi myrt Bhutto en aðrir segja að svo virðist sem innanbúðarmenn hafi verið að verki. Munið að Rawalpindi er virkisborg," sagði Clinton.

Bhutto var ráðin af dögum á kosningafundi í Rawalpindi á fimmtudag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka