Kosningum í Pakistan líklega frestað

Talsmaður stjórnarflokksins í Pakistan sagði í dag, að líklega yrði þingkosningum, sem halda átti 8. janúar, frestað um þrjá til fjóra mánuði vegna morðsins á Benazir Bhutto, leiðtoga stjórnarandstöðunnar. Nú stendur yfir fundur í flokki Bhutto þar sem velja á eftirmann hennar í leiðtogasæti.

Tariq Azim, upplýsingafulltrúi Múslimadeildarinnar, sagði að þingkosningar sem haldnar yrðu nú væru marklausar þar sem flokkur Bhutto væri í sorg og aðrir stjórnarandstöðuflokkar hefðu sagst ætla að sniðganga kosningarnar.

Kjörstjórn Pakistans hefur verið kölluð saman á morgun og er gert ráð fyrir því að hún tilkynni nýjan kjördag eftir þann fund. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert