Ljóst er að þingkosningum verður frestað í Pakistan, samkvæmt upplýsingum AFP fréttastofunnar. Er talið líklegt að þeim verði frestað um að minnsta kosti fjórar vikur en kosningarnar áttu að fara fram þann 8. janúar. Á morgun verður gefið út hvaða dag þær munu fara fram, samkvæmt AP fréttastofunni.
Bilawal Bhutto, 19 ára sonur Benazir Bhutto, fyrrverandi forsætisráðherra Pakistans, tók við formennsku í Þjóðarflokknum í gær. Benazir var myrt á fimmtudag og hefur breska ríkisútvarpið, BBC, það eftir háttsettum meðlimum í flokknum, að Benazir hafi lagt til í bréfi fyrir dauða sinn að Zardari tæki við af henni. Zardari hafi síðan mælt með Bilawal.
Mun Zardari verða hægri hönd sonar síns við formennsku í flokknum sem hyggst bjóða fram í fyrirhuguðum þingkosningum.
Zardari,
sem kallaði eftir rannsókn Sameinuðu þjóðanna á morðinu á konu sinni,
skoraði jafnframt á Nawaz Sharif, einn helsta leiðtoga
stjórnarandstöðunnar, um að hætta við að sniðganga kosningarnar.