Hvetur leiðtoga Kenýa til að stilla til friðar

Stuðningsmenn stjórnarandstöðunnar í Kenýa sjást hér kalla slagorð vopnaðir sveðjum …
Stuðningsmenn stjórnarandstöðunnar í Kenýa sjást hér kalla slagorð vopnaðir sveðjum og kylfum. AP

Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, kallaði eftir því í dag að stjórnmálaleiðtogar í Kenýa leggi sig fram við að binda enda á óöldina sem ríkt hefur í landinu frá því úrslit forsetakosninganna voru kunngerð. Þá hvatti Rice til þess að komist verði að málamiðlun varðandi kosningarnar.

Rice ræddi við Raila Odinga, leiðtoga stjórnarandstöðunnar í landinu, í síma í dag. Þá hugðist hún einnig ræða við Mwai Kibaki, forseta landsins. Hún hvetur leiðtogana til þess að komast að friðsamlegri lausn og draga úr því pólitíska spennuástandi sem ríkir í landinu.

Stuðningsmenn stjórnarandstöðunnar og stjórnarinnar hafa átt í hörðum átökum í landinu undanfarna daga, eða frá því niðurstöður forsetakosninganna lágu fyrir. 

Yfir 300 manns hafa látist í átökunum. Tugir þeirra voru brenndir inni í kirkju þar sem þeir leituðu skjóls undan átökunum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert