Stjórnarandstaðan tekur þátt í þingkosningum

Þingkosningar hafa verið boðaðar í Pakistan þann 18. febrúar
Þingkosningar hafa verið boðaðar í Pakistan þann 18. febrúar Reuters

Stjórnarandstöðuflokkarnir, Þjóðarflokkurinn, og flokkur Nawaz Sharif, fyrrverandi forsætisráðherra, munu taka þátt í þingkosningum í Pakistan þann 18. febrúar nk. Var ákveðið í dag að fresta kosningunum um sex vikur en þær áttu að fara fram þann 8. janúar.

Var það gert í kjölfar morðsins á Benazir Bhutto, fyrrverandi forsætisráðherra og leiðtoga Þjóðarflokksins, í síðustu viku og þeirrar ólgu sem myndaðist í landinu í kjölfarið. Forseti Pakistans, Pervez Musharraf, sagði í dag að það væru hryðjuverkamenn sem beri ábyrgð á morðinu á Benazir Bhutto.

 Stjórnarandstaðan hefur mótmælt því að kosningunum hafi verið frestað en að þeir muni þrátt fyrir það taka þátt. Er litið á kosningarnar sem stórt skref í lýðræðisátt í Pakistan en herforingjastjórn hefur ráðið ríkjum í landinu undanfarin ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert