Mótmælagöngu sem skipulögð er af stjórnarandstæðingum í Kenýa og fram átti að fara í Nairobi í dag hefur verið frestað. Fjöldi fólks var þegar mætt á staðinn og bað Raila Odinga, sem tapaði í forsetakosningum í landinu í síðustu viku, fólk um að fara heim. Þrátt fyrir að mótmælagangan væri ekki hafin höfðu þegar brotist út átök milli mótmælenda og lögreglu. Beitti óeirðarlögregla táragasi á mótmælendur en búist var við að milljónir tækju þátt í mótmælunum í dag.
„Við erum friðsamt fólk sem er á móti ofbeldi," sagði William Ruto, einn helsti samstarfsaðili Odinga. „Þess vegna yfirgefum við svæðið nú með friðsamlegum hætti."
Önnur mótmælaganga hefur verið boðuð í Nairobi þann 8. janúar næstkomandi. En mikil mótmæli brutust út eftir að úrslit forsetakosninganna voru kunngjörð í síðustu viku. Er talið að rúmlega þrjú hundruð manns hafi látist í átökum og að yfir eitt hundrað þúsund hafi þurft að flýja heimili sín.