Helsti stjórnarandstæðuflokkur Kenýa fór fram á það í dag að forsetakosningarnar verði endurteknar í landinu. Frambjóðandi flokksins, Raila Odinga, tapaði í kosningum sem fram fóru þann 27. desember sl. Telur stjórnarandstaðan að brögð hafi verið í tafli við talningu atkvæða og að gögnum hafi verið breytt til að tryggja að ekki sé hægt að koma upp um svikin.
Framkvæmdastjóri stjórnarandstöðuflokksins, Anyang Nyongo, segir að boða eigi til nýrra kosninga sem fyrst og að þær fari fram innan þriggja mánaða.
Erlendir stjórnarerindrekar eru komnir til Kenýa til þess að reyna að miðla málum en skálmöld hefur ríkt í landinu allt frá því að niðurstaða kosninganna lá fyrir. Að minnsta kosti 350 manns liggja í valnum eftir blóðug átök og mikill fjöldi hefur flúið heimili sín.