Neitar hugmyndum um þjóðstjórn

Leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Kenýa, Raila Odinga, neitaði í dag að taka þátt í myndun þjóðstjórnar til þess að binda endi á þjóðernisdeilur sem brutust út eftir að úrslit forsetakosninga sem fram fóru þann 27. desember sl. voru kynnt. 

Odinga sagði á blaðamannafundi í dag að forseti Kenýa, Mwai Kibaki, sem var endurkjörinn með naumum meirihluta, hafi engan rétt á að bjóða fram einhverjar lausnir við stjórnarandstöðuna þar sem hann hafi ekki unnið kosningarnar. Vísar Odinga þar til efasemda um að rétt hafi verið staðið að talningu atkvæða í forsetakosningunum. 

Að sögn Odinga kemst ekki friður á í landinu fyrr en réttlætið sigri. Stjórnarandstaðan vilji fá sáttasemjara að deilunni þannig að samkomulag náist sem sé rétt lagalega ekki þjóðstjórn. Sagðist Odinga fagna því að forseti Ghana og formaður Afríkubandalagsins, John Kufuor, muni koma til Kenýa í vikunni til þess að miðla málum.

Kibaki bauðst til þess í gær að mynda þjóðstjórn eftir að hafa fundað með háttsettum bandarískum embættismanni. Yfir þrjúhundruð manns hafa látið lífið í skálmöldinni sem ríkt hefur frá kosningunum og 250 þúsund manns hafa flúið heimili sín. Ástandið er verst í Nairobi, höfuðborg landsins, en um helgina hefur heldur dregið úr ofbeldinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert