Fjórir féllu í tilræðinu í Kabúl

Bandarískur hermaður á verði við hóteliðð í Kabúl þar sem …
Bandarískur hermaður á verði við hóteliðð í Kabúl þar sem árásin var gerð. AP

Að minnsta kosti fjórir létu lífið og sex særðust í árás sem vopnaðir menn úr röðum talibana gerðu á helsta hótelið í Kabúl, höfuðborg Afganistans, í dag. Utanríkisráðherra Noregs er á hótelinu, en ekki er vitað hvort árásin var tilraun til að ráða hann af dögum. Tveir Norðmenn eru meðal hinna særðu.

Samkvæmt sumum fréttum létust sex manns í tilræðinu. Í skeyti frá Associated Press segir að svo virðist sem árásarmennirnir hafi fyrst og fremst beint spjótum sínum að heilsurækt og baðhúsi á hótelinu, en erlendir gestir á hótinu eru helstu viðskiptavinir heilsuræktarinnar. 

Talibanahreyfingin sagði í yfirlýsingu að menn á hennar snærum hefðu ráðist á hótelið. Einn hefði verið með sprengjuvesti á sér og sprengt sig í loft upp í andyri hótelsins. Aðrir hefðu skotið úr sjálfvirkum rifflum.

Verðir við hótelið felldu einn árásarmannanna. Einnig féll móttökustarfsstúlka sem varð fyrir skoti. Fregnir af því hverjir féllu í árásinni eru óljósar.

Starfsmaður norska utanríkisráðuneytisins mun hafa særst alvarlega, en er þó ekki í lífshættu. Einnig særðist norskur blaðamaður, Carsten Thomassen, sem starfar hjá Dagbladet, alvarlega. Utanríkisráðherrann, Jonas Gahr Støre, leitaði skjóls í kjallara hótelsins og sakaði ekki.

Støre sagði við norskar sjónvarpsstöðvar, að hann hefði verið á hæðinni fyrir neðan anddyri hótelsins að hefja fund þegar sprengja sprakk og skotrhríð hófst. „Okkur var skipað að leggjast á gólfið. Á eftir vorum við flutt niður í sprengjuhelt herbergi af vopnuðum vörðum" sagði hann og leggur áherslu á, að lífverðir og aðrir sem gættu öryggis norsku embættismannanna hafi unnið verk sín óaðfinnanlega. 

Hamid Karzai, forseti Afganistans, hringdi í Støre eftir árásina. Norski utanríkisráðherrann segist vilja undirstrika, að þessir atburðir hafi engin áhrif á stuðning Norðmanna við afgönsk stjórnvöld í þeirri viðleitni að bæta öryggismál í landinu.

Gert var ráð fyrir að Støre yrði fluttur frá hótelinu undir kvöld. Að sögn norskra fjölmiðla bað hann um að fá að fara á tékkneska hersjúkrahúsið í nágrenni flugvallarins í Kabúl þar sem  Norðmennirnir tveir sem særðust liggja, til að fá upplýsingar um líðan þeirra. Gert var ráð fyrir að ráðherrann myndi í heimsókninni til Afganistan einnig heimsækja norska hermenn, sem þar eru við friðargæslu.

Hótelið heitir Serena og er helsta lúxushótelið í Kabúl. Það er vinsæll gististaður erlendra stjórnarerindreka og kaupsýslumanna, og fundir æðstu ráðamanna Afganistans fara þar fram.

Serena hótelið.
Serena hótelið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert