Fyrrverandi framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Kofi Annan, mun koma til Kenýa á morgun til þess að reyna að miðla málum í deilu milli stjórnar- og stjórnarandstöðunnar í landinu. Fleiri hundruð hafa týnt lífi í átökum í landinu eftir forsetakosningar sem fram fóru þann 27. desember sl. er forseti landsins, Mwai Kibaki, var endurkjörinn. Stuðningsmenn forsetaframbjóðandans, Raila Odinga, telja að ekki hafi verið staðið heiðarlega að talningu atkvæða í kosningunum.
Talsmaður Annan greindi frá því í dag að hann myndi koma til Nairóbí, höfuðborgar Kenýa, á morgun. Mun hann stýra viðræðum milli leiðtoga Afríkuríkja þar sem reynt verður að finna lausn á eldfimu ástandi í landinu. Kofi Annan hvatti alla leiðtoga stjórnmálaflokka í Kenýa til þess á föstudag að forðast það að taka ákvarðanir eða gera eitthvað sem geti haft áhrif til hins verra í þeirri deilu sem þar ríkir á meðan reynt sé að vinna að lausn hennar.
Talið er að minnsta kosti 700 manns hafi látist í átökunum í Kenýa frá því að Kibaki sór embættiseið sem forseti landsins. Jafnframt hafa um 260 þúsund manns flúið heimili sín vegna skálmaldarinnar í landinu.