Morðið á Bhutto rannsakað áfram

Benazir Bhutto sést hér á fjöldafundi í Pakistan á öðrum …
Benazir Bhutto sést hér á fjöldafundi í Pakistan á öðrum degi jóla. AP

Sex úr hópi bresku rannsóknarlögreglunnar, Scotland Yard, sem hafa unnið að rannsókn morðsins á Benazir Bhutto í Pakistan að undanförnu, héldu til Lundúna í dag með gögn sem þeir hafa safnað saman í tengslum við morðið á Bhutto, leiðtoga stjórnarandstöðunnar og fyrrverandi forsætisráðherra Pakistans, þann 27. desember sl.

Fjórir breskir rannsóknarlögreglumenn munu dvelja áfram í Pakistan við rannsókn málsins en forseti Pakistans, Pervez Musharraf, óskaði eftir liðsinni frá breskum stjórnvöldum við rannsókn á morðinu í byrjun ársins. Vegna morðsins á Bhutto var ákveðið að fresta fyrirhuguðum þingkosningum, sem áttu að vera 8. janúar, til 18. febrúar.

Samkvæmt upplýsingum AFP fréttastofunnar frá Scotland Yard munu breskir rannsóknarlögreglumenn vinna að rannsókn málsins bæði í Pakistan og Bretlandi þar til málið upplýsist.

Gögnin sem lögreglumennirnir fóru með til Bretlands til frekari rannsóknar eru meðal annars myndband af atburðinum þann 27. desember sl., og gögn sem tengjast skotvopnarannsókninni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka