Tveir Norðmenn særðust í Kabúl

Jonas Gahr Støre ásamt Inam-ul-Haq, utanríkisráðherra Pakistans, í Islamabad í …
Jonas Gahr Støre ásamt Inam-ul-Haq, utanríkisráðherra Pakistans, í Islamabad í Pakistan í morgun en hann hélt síðan til Kabúl. AP

Sprengju var í dag varpað á hótel í Kabúl í Afganistan þar sem Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs, er staddur. Blaðamaður Aftenposten, sem einnig var á hótelinu, segir að byggingin hafi skolfið.

Ekki er vitað til þess að ráðherrann hafi sakað en hann hefst nú við, að sögn Aftenposten, í sprengjuheldu herbergi í kjallara hótelsins. Tveir Norðmenn særðust og var annar þeirra blaðamaður en hinn er starfsmaður utanríkisráðuneytisins.  

Blaðamaðurinn sem særðist starfar sem ljósmyndari á Dagbladet. Skotið var á hann og fleiri Norðmenn þegar þeir komu út úr lyftu í hótelinu. Að sögn var árásarmaðurinn klæddur lögreglubúningi. Ljósmyndarinn varð fyrir tveimur skotum og var fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar.

Árásin var gerð á Serena hótelið, sem er nýbyggt og eina lúxushótelið í Kabúl.  AP fréttastofan hefur eftir talsmanni talibana, að sjálfsmorðsárásarmaður og þrír herskáir talibanar vopnaðir handsprengjum og byssum hafi gert árásina á hótelið.

AFP fréttastofan segir, að öryggisvörður á hótelinu hafi látið lífið í árásinni. Þá hafi öryggisverðir drepið einn af árásarmönnunum þremur en ekki sé ljóst hver afdrif hinna tveggja árásarmannanna urðu. 

Serena hótelið.
Serena hótelið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert