Leyniþjónustan í Afganistan handtók í morgun mann í lögreglubúningi, en hann er talinn hafa tekið þátt í árás á Serena hótelið í Kabúl í gær þar sem Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs, var staddur.
Norska leyniþjónustan telur ekki, að árásinni, sem talibanar hafa gengist við, hafi verið beint gegn Støre en samt hefur verið ákveðið að ráðherrann haldi heim til Noregs í dag, degi fyrr en áður var áformað. Hann mun þó áður hitta Hamid Karzai, forseta Afganistans, á fundi.
Sjö manns létu lífið í árásinni á hótelið, þar af einn norskur blaðamaður og tveir af árásarmönnunum en hinir voru afganskir öryggisverðir. Starfsmaður norska utanríkisráðuneytisins særðist alvarlega.
Amrullah Saleh, yfirmaður leyniþjónustu Afganistans, sagði að þrír árásarmenn hefðu ráðist inn í hótelið í gær. Öryggisvörður skaut einn þeirra til bana og við það sprakk sprengjuvesti sem árásarmaðurinn var með. Annar árásarmaður sprengdi sig í loft upp við innganginn á hótelinu og sá þriðji reyndi að komast inn í líkamsræktarsal á jarðhæðinni og skaut af byssu á leiðinni, þar á meðal á Norðmennina tvo.
Þessi árásarmaður var að lokum handtekinn. Saleh sýndi mynd, sem tekin var með eftirlitsmyndavél hótelsins og sýnir vopnaðan mann í lögreglubúningi.
Ban Ki-Moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sagði í gær að árásin á hótelið hefði beinst gegn Gahr Støre en norski utanríkisráðherrann sagði í morgun, að norska leyniþjónustan hefði komist að þeirri niðurstöðu að svo væri ekki. Talsmaður talibana sagði í gær að árásarmennirnir hefðu ekki vitað að norski utanríkisráðherrann væri á hótelinu.