Kofi Annan, fyrrum framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur fordæmt gróf og skipulögð mannréttindabrot sem hann segist hafa séð sannanir fyrir í Kenýa. Segir Annan að þótt átökin í landinu hafi hafist vegna deilna um framkvæmd kosninga þá snúist þau nú orðið greinilega um annað. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Benjamin Mkapa, fyrrum forseti Tansaníu, sem er á ferð um Kenýa með Annan tekur í sama streng. „Stjórnmálakreppan í landinu hefur valdið angist og örvæntingu, " segir hann.
Sextán lík manna, sem virðast hafa verið brenndir inni, voru flutt í líkhús í Nakuru í Rift-dalnum í dag og segja sjúkrahússtarfsmenn þar að níu lík til viðbótar hafi verið flutt á sjúkrahús. Þau hafi borið merki þess að fólkið hafi verið drepið með sveðjum.